Takmörkuð ábyrgð Apple til eins (1) árs – (ÍSLAND)
Aðeins fyrir merkjavöru frá Apple
NEYTENDALÖG
Takmörkuð ábyrgð Apple til eins árs er óáskilin ábyrgð frá framleiðanda. Í henni felast réttindi sem aðskilin eru réttindum neytendalaga, þ.m.t. en ekki takmarkað við réttindi vegna vara sem uppfylla ekki kröfur.
Sem slík er takmörkuð ábyrgð Apple til eins árs viðbót við, en kemur ekki í stað, réttinda sem neytendalög veita.
Ef vara er gölluð geta, einkum, neytendur fært sér í nyt réttindi þau sem innifalin eru í lögum nr. 48/2003 um kaup neytenda. Kröfutími fyrir kaup neytenda á Íslandi er tvö ár (fimm ár ef endingartími vörunnar er áætlaður mun lengri en alla jafna) frá afhendingu vöru. Slíkar kröfur falla undir réttindi og kröfur sem kveðið er á um í landslögum.
Neytendur geta valið hvort þeir fara fram á þjónustu samkvæmt takmarkaðri ábyrgð Apple til eins árs eða neytendalögum.
Mikilvægt: Skilmálar takmarkaðrar ábyrgðar Apple til eins árs eiga ekki við þegar krafa er lögð fram samkvæmt neytendalögum.
Frekari upplýsingar um neytendalög fást á vefsvæði Apple (www.apple.com/legal/warranty/statutoryrights.html) eða hjá viðkomandi neytendasamtökum.
YFIR HVAÐ NÆR ÞESSI ÁBYRGÐ?
Apple Distribution International í Hollyhill Industrial Estate Hollyhill, Cork, Írlandi (eða síðari handhafi réttinda) („Apple“) ábyrgist vélbúnað og aukabúnað frá Apple í upphaflegum umbúðum („Apple-vara“) vegna galla í efni eða frágangi þegar hann er notaður í samræmi við notendahandbækur, tæknilýsingar og aðrar útgefnar leiðbeiningar fyrir Apple-vörur frá Apple í EITT (1) ÁR frá upphaflegum kaupum kaupanda („ábyrgðartímabil“). Þú getur nýtt þér úrræði fyrir Apple-vörur sem bjóðast með takmarkaðri ábyrgð Apple til eins árs á næsta þjónustustað Apple nánast hvar sem er í heiminum (upplýsingar í hlutanum „Hvernig á að fá ábyrgðarþjónustu“). Ef gallar í efni eða frágangi koma í ljós geturðu beint kröfum þínum til Apple, jafnvel þótt þú hafir keypt Apple-vöruna af þriðja aðila.
Athugaðu: Allar kröfur sem lagðar eru fram samkvæmt takmarkaðri ábyrgð Apple til eins árs falla undir skilmálana í þessu ábyrgðarskjali.
Að auki býður Apple upp á aðgang að tækniaðstoð í gegnum síma í níutíu (90) daga frá afhendingu Apple-varanna.
YFIR HVAÐ NÆR ÞESSI ÁBYRGÐ EKKI?
Þessi ábyrgð á ekki við vélbúnað eða hugbúnað sem ekki er frá Apple, jafnvel þótt hann sé innpakkaður eða seldur með vélbúnaði frá Apple.
Hugsanlega fylgir vörum sem ekki eru frá Apple ábyrgð frá framleiðanda sem býður upp á bætur til viðbótar við réttindi sem falin eru í neytendalögum. Upplýsingar er að finna á vöruumbúðum og í fylgiskjölum.
Upplýsingar um réttindi þín í tengslum við notkun hugbúnaðarins eru í meðfylgjandi leyfissamningi.
Þú getur fengið þjónustu í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss án þess að þurfa að greiða fyrir flutning og meðhöndlun. Þjónustuvalkostir utan þessa svæðis kunna að vera takmarkaðir. Ef tiltekinn þjónustuvalkostur er ekki í boði fyrir Apple-vöruna í slíku landi skal Apple eða fulltrúi þess upplýsa þig um viðbótarkostnað vegna flutnings og meðhöndlunar sem kann að bætast við áður en þjónusta er veitt. Kostnaður vegna flutnings og meðhöndlunar bætist ekki við í löndum þar sem Apple starfrækir Apple-verslun eða viðurkenndan þjónustuaðila Apple („viðurkenndur þjónustuaðili Apple“) (lista yfir núverandi þjónustustaði má finna á support.apple.com/kb/HT1434).
Þegar hringt er í Apple kann kostnaður við símtalið að falla á þig, allt eftir staðsetningu þinni. Símafyrirtækið þitt veitir frekari upplýsingar.
Þessi ábyrgð nær ekki til: (a) rekstrarvara, t.d. rafhlaðna eða hlífðarhúðunar sem gert er ráð fyrir að rýrni með tímanum, nema þegar bilunin er tilkomin vegna galla í efni eða frágangi; (b) útlitslegra skemmda, meðal annars rispna, beyglna og brotins plasts við tengi, nema þegar bilunin er tilkomin vegna galla í efni eða frágangi; (c) skemmda sem hljótast af notkun með íhlut eða vöru frá þriðja aðila sem uppfyllir ekki gæðalýsingu Apple-vörunnar (finna má gæðalýsingar Apple-vara á www.apple.com undir tæknilegum upplýsingum fyrir hverja vöru og einnig eru þær fáanlegar í verslunum); (d) skemmda sem rekja má til slysa, misnotkunar, elds, vökva, jarðskjálfta eða annarra ytri þátta; (e) skemmda sem rekja má til notkunar Apple-vörunnar sem ekki er í samræmi við leiðbeiningar í notendahandbókum, tæknilýsingum og öðrum útgefnum leiðbeiningum Apple-vörunnar; (f) skemmda sem rekja má til vinnu (þ.m.t. uppfærslu og viðbóta) sem ekki er framkvæmd af fulltrúa Apple eða viðurkenndum þjónustuaðila Apple („viðurkenndur þjónustuaðili Apple“); (g) Apple-vöru sem hefur verið breytt til að breyta eiginleikum hennar eða afköstum án skriflegs leyfis frá Apple; (h) galla vegna eðlilegs slits eða aldurs Apple-vörunnar; (i) þeirra tilvika þegar raðnúmer hefur verið fjarlægt eða afmáð af Apple-vörunni eða (j) þeirra tilvika þegar Apple hefur fengið upplýsingar frá viðeigandi opinberum yfirvöldum um að vörunni hafi verið stolið eða ef þú getur ekki slökkt á öryggisráðstöfunum með aðgangskóða eða öðrum öryggisráðstöfunum sem ætlað er að koma í veg fyrir aðgang að Apple-vörunni í leyfisleysi og þú getur ekki sannað með neinum hætti að þú sért heimilaður notandi vörunnar (t.d. með því að framvísa kvittun).
MIKILVÆGAR TAKMARKANIR
Apple kann að takmarka ábyrgðarþjónustu fyrir Apple TV við lönd þar sem Apple eða viðurkenndir endursöluaðilar þess selja tækið.
Að því er varðar iPad-tæki með tengingu við farsímakerfi og iPhone-tæki tryggir ábyrgðin þjónustu fyrir lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss. Þjónustuvalkostir utan þessa svæðis kunna að vera takmarkaðir vegna tæknimála sem Apple hefur ekki stjórn á – sjá upplýsingar hvað varðar iPad-tæki með tengingu við farsímakerfi og iPhone-tæki á www.apple.com/iphone/LTE/ og www.apple.com/ipad/LTE/.
Að því er varðar iPad-tæki tryggir ábyrgðin ekki þjónustu í Kína vegna mismunar á Wi-Fi-tengingum sem Apple hefur ekki stjórn á.
ÞÍNAR SKYLDUR
EF APPLE-VARAN ÞÍN GETUR VISTAÐ HUGBÚNAÐARFORRIT, GÖGN OG AÐRAR UPPLÝSINGAR ÆTTIRÐU REGLULEGA AÐ TAKA ÖRYGGISAFRIT AF UPPLÝSINGUM Í GEYMSLUMIÐLI APPLE-VÖRUNNAR TIL AÐ TRYGGJA ÖRYGGI EFNISINS OG VERJA ÞAÐ MÖGULEGUM BILUNUM.
Áður en þú afhendir Apple-vöruna þína inn til ábyrgðarþjónustu skaltu taka öryggisafrit af efninu í geymslumiðlinum, fjarlægja allar persónulegar upplýsingar og gera öll öryggisaðgangsorð óvirk. Við þjónustu kann efninu í geymslumiðli Apple-vörunnar að verða eytt, það fjarlægt og/eða það forsniðið.
Að ábyrgðarþjónustu lokinni er Apple-vörunni þinni eða vörunni sem kemur í stað hennar skilað til þín með sömu stillingum Apple-vörunnar þinnar og við upphafleg kaup, auk viðeigandi uppfærslna. Apple kann að setja upp hugbúnaðaruppfærslur, sem hluta af ábyrgðarþjónustu, sem mun koma í veg fyrir að Apple-varan noti eldri útgáfu kerfishugbúnaðar. Forrit frá þriðju aðilum sem uppsett eru í Apple-vörunni eru hugsanlega ekki samhæf eða virka ekki í Apple-vörunni eftir uppfærslu kerfishugbúnaðar. Þú berð ábyrgð á því að setja aftur upp öll önnur hugbúnaðarforrit, gögn og upplýsingar. Endurheimt og enduruppsetning annarra hugbúnaðarforrita, gagna og upplýsinga falla ekki undir þessa ábyrgð.
Þú kannt að þurfa þjónustu í landi sem ekki er innkaupalandið. Í slíkum tilvikum þarftu að fara að öllum viðeigandi innflutnings- og útflutningslögum og -reglugerðum og bera ábyrgð á öllum tollgjöldum, virðisaukaskatti og öðrum tengdum sköttum og gjöldum.
Mikilvægt: Reyndu ekki að opna Apple-vöruna nema því sé lýst í notendahandbókinni hvernig hún er opnuð eða fjarlægja hlífðarhettur sem eru á Apple-vörunni. Ef Apple-varan er opnuð eða hlífðarhettur fjarlægðar gæti það valdið skemmdum sem þessi ábyrgð nær ekki yfir. Aðeins Apple eða viðurkenndur þjónustuaðili Apple ætti að þjónusta þessa Apple-vöru.
HVERNIG BREGST APPLE VIÐ ÁBYRGÐARKRÖFU?
Ef þú leggur fram kröfu til Apple á ábyrgðartímabilinu í samræmi við þessa ábyrgð mun Apple, að eigin ákvörðun:
(i) gera við Apple-vöruna með nýjum eða notuðum varahlutum sem eru samsvarandi nýjum hvað viðkemur afköstum og áreiðanleika eða
(ii) skipta út Apple-vörunni fyrir sömu gerð (eða með þínu samþykki vöru sem hefur svipaða virkni) sem er sett saman úr nýjum og/eða notuðum varahlutum sem eru samsvarandi nýjum hvað viðkemur afköstum og áreiðanleika eða
(iii) endurgreiða þér kaupverðið í skiptum fyrir Apple-vöruna þína.
Þegar skipt er um vöru eða varahlut eða endurgreiðsla á sér stað verður skiptivaran þín eign og útskipta eða endurgreidda varan verður eign Apple.
Varahlutur eða skiptivara eða viðgerð Apple-vara fellur undir eftirstandandi ábyrgðartímabil upphaflegu Apple-vörunnar eða gildir í níutíu (90) daga frá skiptum eða viðgerð, eftir því hvort veitir þér lengri ábyrgð.
Ef þjónustu er leitað í landi sem er annað en landið sem Apple-varan var keypt í kann Apple að gera við eða skipta út vörum og varahlutum með sambærilegum vörum og varahlutum sem uppfylla staðla viðkomandi lands.
HVERNIG Á AÐ FÁ ÁBYRGÐARÞJÓNUSTU?
Opnaðu og lestu eftirfarandi nethjálp áður en þú leitar ábyrgðarþjónustu:
Alþjóðlegar þjónustuupplýsingar
www.apple.com/support/country
Viðurkenndir þjónustuaðilar Apple, viðurkenndir endursöluaðilar Apple og Apple-verslanir
support.apple.com/kb/HT1434
Stuðningur og þjónusta Apple
www.apple.com/support/contact/phone_contacts.html
Ókeypis stuðningur Apple
www.apple.com/support/country/index.html?dest=complimentary
Ef þú ert ekki með internettengingu eða ekki tókst að laga Apple-vöruna eftir þessum leiðum skaltu hafa samband við fulltrúa Apple, eða, ef við á, smásöluverslun í eigu Apple („Apple-verslun“) eða viðurkenndan þjónustuaðila Apple og viðkomandi aðilar munu aðstoða þig við að ákvarða hvort Apple-varan þín þarfnast þjónustu og, ef svo er, upplýsa þig um hvaða ábyrgðarþjónustukostir Apple sem taldir eru upp hér á eftir eiga við.
Áður en ábyrgðarþjónusta er veitt kann Apple eða fulltrúar þess að krefja þig um kaupkvittun, spyrja þig spurninga til að auðvelda greiningu mögulegra vandamála og biðja þig að fylgja ábyrgðarþjónustuferli Apple, s.s. að fylgja leiðbeiningum fyrir pökkun og flutning Apple-vara þegar um þjónustu með pósti er að ræða.
Ekki þarf að sanna að vandamálið sem um ræðir hafi verið til staðar við afhendingu til að fá þjónustu og stuðning samkvæmt takmarkaðri ábyrgð Apple til eins árs, nema vandamálið passi ekki við eðli ágallans.
ÁBYRGÐARÞJÓNUSTUKOSTIR
Apple mun að eigin ákvörðun, allt eftir tilteknum kringumstæðum, sérstaklega gerð Apple-vörunnar, veita ábyrgðarþjónustu með einum eða fleiri eftirfarandi valkosta:
Apple veitir ábyrgðarþjónustu með einum af eftirfarandi valkostum:
(i) Þjónusta á staðnum. Apple kann að biðja þig um að skila Apple-vörunni þinni inn til Apple-verslunar eða viðurkennds þjónustuaðila Apple sem býður upp á þjónustu á staðnum. Hugsanlega verður Apple-varan þín send viðgerðarþjónustu Apple. Þegar þú færð tilkynningu um að þjónustu sé lokið sækirðu Apple-vöruna í Apple-verslun eða til viðurkennds þjónustuaðila Apple án tafar nema Apple tilkynni þér að þú fáir Apple-vöruna senda frá viðgerðarþjónustu Apple.
(ii) Þjónusta í pósti. Ef Apple velur að veita þjónustu í pósti mun Apple senda þér fyrirframgreidd farmbréf og, ef við á, umbúðir og leiðbeiningar um hvernig á að pakka Apple-vörunni og merkja hana rétt svo að þú getir sent Apple-vöruna þína til viðgerðarþjónustu Apple eða viðurkennds þjónustuaðila Apple. Þegar þjónustu er lokið mun viðgerðarþjónusta eða viðurkenndur þjónustuaðili Apple skila Apple-vörunni til þín. Apple mun borga fyrir flutning til og frá staðsetningu þinni ef öllum leiðbeiningum varðandi pökkunaraðferð og sendingu Apple-vörunnar er fylgt.
(iii) Þjónusta fyrir eigin viðgerðir notanda („eigin viðgerðir“). Samkvæmt þjónustu Apple fyrir eigin viðgerðir notanda mun Apple útvega skiptivöru eða varahluti sem auðvelt er að skipta um eða aukabúnað fyrir vöru, s.s. mús eða lyklaborð, sem hægt er að skipta um án verkfæra. Athugaðu: Apple ber enga ábyrgð á vinnukostnaði vegna þjónustu fyrir eigin viðgerðir notanda. Ef þú þarfnast frekari aðstoðar við skiptin skaltu hafa samband við Apple í símanúmerið hér á eftir eða heimsækja Apple-verslun eða viðurkenndan þjónustuaðila Apple. Ef Apple velur að veita þjónustu fyrir eigin viðgerðir notanda gildir eftirfarandi ferli:
(a) Þjónusta þar sem Apple fer fram á skil á skiptivöru, varahlut eða aukabúnaði: Apple kann að biðja um kreditkortaheimild sem tryggingu fyrir smásöluverði skiptivörunnar, varahlutarins eða aukabúnaðarins og viðeigandi flutningskostnaði. Apple mun senda skiptivöruna, varahlutinn eða aukabúnaðinn til þín með leiðbeiningum um skipti, ef við á, og hvers kyns kröfum um að vörunni eða varahlutnum sem skipt var út verði skilað. Ef þú fylgir leiðbeiningunum mun Apple afturkalla kreditkortaheimildina og þú þarft ekki að greiða fyrir vöruna eða varahlutinn og flutning til og frá staðsetningu þinni. Ef þú skilar ekki vörunni, varahlutnum eða aukabúnaðinum sem skipt var um eins og sagt er til um eða skilar vöru, varahlut eða aukabúnaði sem þjónustan gildir ekki fyrir mun Apple gjaldfæra á kreditkortið þitt samkvæmt upphæð heimildarinnar. Ef þú getur ekki útvegað kreditkortaheimild stendur þér þjónustan hugsanlega ekki til boða og Apple mun bjóða þér annars konar þjónustu.
(b) Þjónusta þar sem Apple fer ekki fram á skil á skiptivöru, varahlut eða aukabúnaði: Apple mun senda skiptivöruna, varahlutinn eða aukabúnaðinn til þín þér að kostnaðarlausu með leiðbeiningum um uppsetningu, ef við á, og hvers kyns kröfum um förgun vörunnar, varahlutarins eða aukabúnaðarins sem skipt var út.
TAKMÖRKUN ÁBYRGÐAR
(i) Allir hlutar samningsins:
Fyrir utan réttindi þín á grundvelli laga um neytendakaup sem greint er frá í upphafi þessa skjals falla allar ábyrgðir, skilyrði og aðrir skilmálar sem ekki eru sett fram í þessu ábyrgðarskjali utan takmarkaðrar ábyrgðar Apple til eins árs. Sum lönd leyfa ekki takmarkanir á gildistíma slíkra ábyrgða, skilyrða og/eða undirskilinna skilmála og því kann framangreind takmörkun ekki að eiga við þig.
(ii) Afsal ábyrgðar vegna gagna:
Apple ábyrgist ekki, gefur sig út fyrir eða samþykkir að geta gert við eða skipt um Apple-vöru samkvæmt þessari ábyrgð án þess að upplýsingar og/eða gögn séu í hættu og/eða glatist úr Apple-vörunni.
(iii) Takmörkun ábyrgðar:
Undir engum kringumstæðum skal Apple bera ábyrgð á:
a) tapi sem ekki er til komið vegna brota okkar á þessu ábyrgðarskjali;
b) tapi eða tjóni sem ekki var, þegar varan var keypt, fyrirsjáanleg afleiðing af brotum Apple á þessu ábyrgðarskjali; eða
c) rekstrartapi, hagnaðartapi, gagnatapi eða glötuðum viðskiptatækifærum.
Ákvæði í þessu ábyrgðarskjali skulu ekki ná yfir (i) dauðsföll eða líkamstjón, (ii) svik eða vítaverða vanrækslu; eða (iii) rangar staðhæfingar; eða (iv) aðra bótaábyrgð sem ekki má takmarka eða útiloka samkvæmt lögum.
ALMENNT
Hvorki endursöluaðilar, fulltrúar né starfsmenn Apple hafa heimild til að breyta, auka eða bæta við þessa ábyrgð.
Ef skilmáli er dæmdur ólöglegur eða óframkvæmanlegur skal hann felldur út úr þessari ábyrgð án þess að það hafi áhrif á lagagildi og framfylgni eftirstandandi skilmála.
Þessi ábyrgð fellur undir og er túlkuð samkvæmt lögum þess lands sem Apple-varan var keypt í.
© 2016 Apple Inc. Allur réttur áskilinn. Apple og Apple-merkið eru vörumerki Apple Inc., skráð í Bandaríkjunum og öðrum löndum.
071816-Iceland-Universal-Warranty-v1.2